Gestur

Gestur er fjórði krakkinn í röðinni. Hann er fæddur 6. september 1945, þremur dögum eftir að fjölskyldan flutti í Páluhúsið. Gestur ólst upp í heimahúsum, en var þó 5 sumur í sveit hjá Birni og Sigurbjörgu í Felli. Hann fór í Reykholt og tók landspróf og síðan í Menntaskólann á Akureyri. Útskrifaðist þaðan vorið 1965. Fór þá um haustið að vinna hjá Pálma í Hagkaup. Var á skrifstofunni í Lækjargötu, en leysti Ella Kristins stundum af á sendibílnum, þegar Elli var illa fyrir kallaður. Í febrúar næsta ár byrjaði Hagkaup að versla á Akureyri, fór Gestur þá þangað og var með Hagkaup þar í sjö mánuði. Hann hætti svo hjá Hagkaup fyrir jólin 1966 og fór heim í Skagafjörðinn, byrjaði 2. janúar 1967 í Búnaðarbankanum á Sauðárkróki og vann þar það sem eftir var af starfsaldrinum, síðustu árin sem útibússtjóri.
Gestur æfði og keppti í fótbolta með UMF Höfðstrendingi, UMSS og UMF Tindastóli. Tók einnig þátt í frjálsum íþróttum, varð einu sinni íslandsmeistari í langstökki og vann í sömu grein á tveimur Landsmótum UMFÍ.
Gestur giftist Sóley Önnu Skarphéðinsdóttur 26. des. 1967 og eiga þau fimm börn, (sjá undirsíður). Þau reistu sér hús að Grundarstíg 2 á Sauðárkróki og bjuggu þar fram að því að þau byggðu í Tröð í Borgarsveit, þar sem þau hafa búið frá árinu 1981. Þar hafa þau verið með tómstundabúskap meðfram starfinu, en Sóley hefur stundað tækifærisveitingarekstur í áratugi, ásamt því að ala upp börnin.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.